Icelandair: Drög að rekstrarniðurstöðu 3. ársfjórðungs og birting uppgjörs
Drög að uppgjöri þriðja ársfjórðungs Icelandair Group liggja nú fyrir og skv. þeim er gert ráð fyrir að EBIT hagnaður félagsins verði um USD 74 milljónir samanborið við USD 83,5 milljónir á sama tíma á síðasta ári. Í afkomuspá frá því í júlí sl. var gert ráð fyrir aukinni arðsemi á þriðja fjórðungi miðað við fyrra ár, en sú þróun hefur ekki gengið eftir.
Tekjur á fjórðungnum jukust á milli ára í samræmi við áætlanir þrátt fyrir þrýsting á fargjöld á Norður-Atlantshafsmarkaðnum. Hins vegar var kostnaður hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem skýrist af sterkara raungengi krónunnar, sem veldur hækkun á launakostnaði. Þá var eldsneytiskostnaður hærri en ráðgert var, þar með talinn kostnaður við uppgjör ETS kolefniseininga. Ófyrirséð skammtímaleiga á flugvél í ágúst, vegna viðgerðar á annarri flugvél, hafði aukinn kostnað í för með sér.
Sjóðsstaða félagsins var mjög sterk í lok september en handbært fé var um USD 410 milljónir og þá hafði félagið aðgang að óádregnum lánalínum upp á USD 92 milljónir. Miðað við núverandi horfur er gert ráð fyrir að EBIT afkoma fyrir árið í heild verði neikvæð sem nemur USD 10-20 milljónum. Árshlutauppgjör félagsins er enn í vinnslu og getur tekið breytingum fram að birtingu.
Fyrir árið 2026 hefur félagið aðlagað framboð sitt að aðstæðum, einkum að veikri eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaði og sterkri krónu. Þannig verður flugvélum í farþegaleiðakerfinu fækkað um tvær. Þrátt fyrir fækkun flugvéla er ráðgert að heildarframboð ársins, mælt í sætiskílómetrum, haldist nánast óbreytt á milli ára sem þýðir áframhaldandi bætt nýting innviða allt árið um kring. Áhersla á aukna skilvirkni í rekstri og strangt kostnaðaraðhald er áfram forgangsverkefni en þegar hefur verið ráðist í fjölmargar aðgerðir til þess að bæta rekstur og afkomu.
Icelandair birtir uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2025, miðvikudaginn 22. október 2025, en ekki 23. október eins og áður hafði verið tilkynnt. Streymt verður frá fjárfestakynningu í tengslum við birtingu uppgjörsins kl. 8:30 fimmtudaginn 23. október á: https://icelandairgroup.com þar sem Bogi Nils Bogason forstjóri og Ívar S. Kristinsson framkvæmdastjóri fjármála munu fara yfir uppgjörið, fjalla um horfur í rekstrinum og svara spurningum. Kynningin ásamt streymi verða aðgengileg á vefsíðu fyrirtækisins eftir fundinn.